Véfréttin fúlsar við launum lúsar

Eins og alþjóð veit (eða ætti að vita) er Véfréttin að leita sér að starfi. Síðast þegar Véfréttin var í starfsleit var hún aðeins með BA-gráðu og komst fljótlega að því að ekki var feitan gölt að flá. Sérstaklega ekki þegar hún lét sig dreyma um 60 - 80% starfshlutfall, en það er út af fyrir sig önnur saga.

Nú hefur Véfréttin, með blóði, svita og tárum, unnið sér inn MA-gráðu og er af henni allstolt, enda með stórgóða meðaleinkunn og frábært lokaverkefni. Og enn er Véfréttin í atvinnuleit - nú á höttunum eftir starfi til að stunda næstu 34 árin, til að byrja með.

Á mánudaginn fór Véfréttin í atvinnuviðtal. Starfið sem auglýst var var einkar áhugavert. Það snerist um að byggja upp starf með unglingum á tilteknu svæði. Véfréttin vissi, áður en hún sótti um, að störf af þessum toga væru ekki meðal þeirra hæst launuðu. Henni fannst þó starfið það spennandi að hún var viljug til að kanna málið. Eftir að hafa fræðst um eðli starfsins í starfsviðtali var hún orðin ansi áhugasöm og strax farin að hliðra til í huganum og búa sig undir að sneiða hjá efnishyggjukapphlaupinu næstu árin, til að geta unnið þetta spennandi starf.

En svo kom launaumræðan.

Hjarta Véfréttarinnar brast.

Hvernig sem á það er litið hefur fjögurra manna fjölskylda, þar sem önnur af tveimur mögulegum fyrirvinnum hefur eytt tveimur árum í nám, ekki efni á að þiggja slík lúsarlaun. Í ofanálag höguðu örlögin því svo til að fjölskyldan þurfti að flytja í nýtt húsnæði á árinu og er með greiðslubyrði í hærri kantinum. Og sem stendur tvo bíla til að borga af (þar til einhver kaupir drusluna).

Í kvöld voru fréttir af því að íslenskir grunnskólakennarar væru þeir lægst launuðu á Norðurlöndunum. Sem kunnugt er lepja leikskólakennarar líka dauðann úr skel. Og störf eins og þetta sem Véfréttin var svo spennt fyrir, sem snúast um starf með börnum og ungu fólki og þar sem gerð er krafa um háskólamenntun, eru svo illa launuð að í þau getur varla fengist nema allra gallharðasta hugsjónafólk - og svo kannski einhverjir lúserar sem fá enga aðra vinnu. Enda sagði konan, sem aldrei verður yfirkona Véfréttarinnar, að fáir hefðu sótt um. Aðrir efnilegir kandídatar eru semsagt betur upplýstir um launaskrá sveitarfélaga (eða hvað það heitir) og hin harða, kalda raunveruleika en Véfréttin.

Þannig að atvinnuleit Véfréttarinnar heldur áfram.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Véfrétt

Höfundur

Véfréttin
Véfréttin
    Nóv. 2024
    S M Þ M F F L
              1 2
    3 4 5 6 7 8 9
    10 11 12 13 14 15 16
    17 18 19 20 21 22 23
    24 25 26 27 28 29 30

    Heimsóknir

    Flettingar

    • Í dag (21.11.): 0
    • Sl. sólarhring:
    • Sl. viku:
    • Frá upphafi: 0

    Annað

    • Innlit í dag: 0
    • Innlit sl. viku:
    • Gestir í dag: 0
    • IP-tölur í dag: 0

    Uppfært á 3 mín. fresti.
    Skýringar

    Innskráning

    Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

    Hafðu samband